Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Hey Iceland segir bókunartímabil næsta árs fara betur af stað heldur en sami tími fyrir þetta ár gerði að því er Morgunblaðið greinir frá.

Sævar sagði frá því í byrjun sumars að samdráttur hefði verið í bókunum til landsins frá Evrópu og evrusvæðinu vegna styrkingar krónunnar, þó staðan væri aðeins betri í bókunum frá Bandaríkjunum.

Nú er að hans mati hins vegar vísbendingar um að eftirspurnin sé að aukast á ný vegna veikingar krónunnar. Jafnframt sé merkjanleg breyting að bókanir séu gerðar með styttri fyrirvara.

Ferðamálastjóri, Skarphéðinn Berg Steinarsson, segir að ef evran fáist fyrir 140 krónur eða meira séu vaxtaskilyrði fyrir hendi fyrir íslenska ferðaþjónustu en sé gengið sterkara sé það síður raunhæft að greinin vaxi hratt.

Krónan ekki farin að gefa eftir þegar tilboð voru reiknuð

„Það er vandamál að við ákveðum verðið ár fram í tímann. Þegar við vorum að reikna út tilboð í ágúst síðastliðnum fyrir árið 2019 var krónan ekki farin að gefa eftir,“ segir Sævar.

„Á mörgum sviðum erum við búin að gefa út verð til erlendra endursöluaðila sem var reiknað út frá öðru gengi. Þegar við reiknuðum út verðið í ágúst kostaði evran um 125 krónur en kostar nú 138 krónur. Við erum strax farnir að leiðrétta verðið eftir föngum.“

Segir Sævar stjórnendur í ferðaþjónustu vilji bíða með að endurreikna verð þangað til betur sjáist hvort veiking krónunnar sé viðvarandi. Bæði Sævar og Steingrímur segja mikið velta á hvað framhaldið verður hjá Wow air, enda hafi framboð flugsæta áhrif á fjölda ferðamanna.