Við stöndum frammi fyrir mjög íþyngjandi Evrópuregluverki, fyrstu samræmdu reglunum á sviði verðbréfa miðstöðva,“ segir Magnús Ásgeirsson, sem tók við starfi framkvæmdastjóra Nasdaq verðbréfamiðstöðvarinnar á Íslandi í febrúarbyrjun. Magnús er enginn nýgræðingur hjá Nasdaq, því hann starfaði áður sem yfirlögfræðingur Nasdaq á Íslandi. Miklar breytingar eru framundan hjá verðbréfamiðstöðinni en auk þeirra breytinga sem nýtt regluverk kallar á stefnir verðbréfamiðstöðin á Íslandi að sameiningu við verðbréfamiðstöð Nasdaq CSD í Eystrasaltslöndunum.

„Regluverk verðbréfamiðstöðva hefur hingað til ekki verið samræmt. Það hafa orðið grundvallarbreytingar á öðrum innviðum í bankakerfinu og kauphöllunum.“ Verðbréfamiðstöðvar eru í raun innviðir á verðbréfamarkaði og halda meðal annars með rafrænum hætti utan um alla verðbréfaeign í miðlægum gagnagrunni. „Reglurnar eru að koma utan um þennan rekstur, reglur sem taka bæði á rekstrinum en gera líka miklar kerfislegar kröfur. Núna sjáum við fram á kerfisútskipti því okkar grundvallarkerfi sem varsla bréfin og gera upp viðskipti uppfylla ekki kröfur. Það hefur verið við lýði í mýmörg ár, svipað og aðrir innviðir á markaði,“ segir Magnús, og nefnir kerfi Reiknistofu bankanna (RB) og Seðlabankans í því samhengi – kerfi sem er verið að uppfæra. „Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur þurfum við að skipta þessum kerfum út. Í tuttugu ára rekstrarsögu hefur eiginlega engin grundvallarbreyting átt sér stað á verðbréfauppgjörskerfinu. Þetta er ein stærsta breyting á rekstri innviða á verðbréfamarkaði í tuttugu ár.“

Hvað þýðir þetta fyrir ykkur og fyrir notendur?

„Bakgrunnur regluverksins er auðvitað fjármálahrunið 2008. Menn eru að reyna að setja reglur sem draga úr áhættu í kerfinu í tengslum við utanumhald og afhendingu á verðbréfum. Það er leiðarljósið í regluverkinu. Út frá því þurfum við að uppfæra alla okkar innviði. Það er bæði flókið og kostnaðarsamt og við erum í raun og veru að stofna nýja verðbréfamiðstöð. Við erum að kasta nánast öllu sem við höfum gert, öllum verkferlum, öllu sem tengist uppgjöri viðskipta og búa til nýtt. Við gerum upp á móti Seðlabanka Íslands í krónum. Þetta ferli mun taka gjörbreytingum samhliða því sem Seðlabankinn skiptir líka um sitt kerfi.

Í dag gerum við upp krónurnar fyrir milligöngu RB. Það mun hætta og við eiga í beinum samskiptum við Seðlabankann. Þetta er mjög umfangsmikið og kallar á mikinn mannskap og mikla þekkingu og reynslu. Við erum með mjög góða blöndu starfsfólks til dæmis frá bönkunum og þekkjum því hvað viðskiptavinirnir vilja fá. Á sama tíma erum við með mikla reynslu af því að reka innviði. Þar að auki erum við inni í Nasdaq, sem hefur fyrst og fremst reynslu af því að reka innviði á markaði – kauphallir, verðbréfamiðstöðvar, fjármálafyrirtæki og miðlæga mótaðila,“ segir Magnús.

Nýtt regluverk skapar tækifæri

„Við sækjum á þessi mið til að afla okkur upplýsinga og reynslu til að mæta kröfum reglnanna. Við höfum unnið í þessu í töluvert langan tíma og munum mæta þessum kröfum tímanlega,“ en Magnús gerir ráð fyrir að regluverkið komi inn í haust. „Við bíðum í rauninni í ofvæni að nýtt regluverk komi. Það sem gerist með nýju regluverki er að það skapast leiðir og tækifæri fyrir okkur og íslenskan verðbréfamarkað.“ Magnús segir mikinn kost að reka verðbréfamiðstöð innan Nasdaq, sem hefur þurft að laga sig að því regluverki sem brátt tekur gildi hér á landi.

„Eitt grundvallaratriði í þessu er að við þurfum að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu. Við þurfum að senda aftur inn öll gögn um reksturinn og eins og ég sagði, í rauninni byrja alveg upp á nýtt.“

Samhliða þessu þarf auðvitað að reka gamla kerfið þangað til það nýja tekur við. „Það er gríðarlega áhættusamt verkefni að skipta út þessum grundvallarinnviðum. Við þurfum að færa allar upplýsingar um verðbréfaeign allra Íslendinga inn í nýtt kerfi og það þarf að gerast 100% rétt. Annars tapast upplýsingar um verðbréfaeign allra Íslendinga. Þetta er ástæðan fyrir því hvað eru gerðar miklar kröfur til rekstursins. Við tökum auðvitað vel á móti nýju regluverki því kröfurnar sem eru til staðar í dag eru gamlar. Regluverkið er frá aldamótum og miðast við allt annað umhverfi. Þá voru tekin fyrstu skrefin frá pappír í átt að rafvæðingu. Núna tökum við skrefin í átt að alþjóðlegu samstarfi. Við sjáum fyrir okkur að þessi verðbréfamiðstöð sem við höfum leitað til, Nasdaq CSD, sem varð til á grundvelli þriggja verðbréfamiðstöðva Eystrasaltslandanna, geri okkur kleift að sækja á evrópsk mið. Þær sameinuðust árið 2017 á grundvelli heimilda í regluverkinu. Evrópskar verðbréfamiðstöðvar eru í þeim raunveruleika núna að þurfa að sækja um ný starfsleyfi. Nasdaq CSD var sú fyrsta til að fá nýtt starfsleyfi í Evrópu og margar af stærstu verðbréfamiðstöðvum í Evrópu eru í vandræðum með að fá nýtt starfsleyfi. Stærstu vörsluaðilar verðbréfa í heimi, sem ætluðu að sækja inn í Evrópu með starfsemi verðbréfamiðstöðva, gáfust upp út af regluverkinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .