Bæði Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda gera athugasemdir við frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra iðnaðar-, ferðaþjónustu- og nýsköpunar til einföldunar regluverks.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á mánudag setti hún og Kristján Þór Júlíusson ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála af stað aðgerðaráætlun í atvinnuvega- og nýsköpunarmálum þar sem fyrsta skrefið var að hann felldi niður tæplega ellefuhundruð reglugerðir en það næsta var frumvarp hennar um afnám ýmissa lagabálka og lagagreina hér og þar í málaflokkum hennar.

Meðal þess sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áformar að fella niður er skilyrði um leyfisveitingar fyrir sölu notaðra ökutækja, þar með talið kröfu um starfsábyrgðartryggingu, svo og kröfu um námskeið og próf fyrir bílasala.

Í greinargerð segir að niðurfellingin sé til þess fallin að „draga úr aðgangshindrunum að þessari atvinnustarfsemi og þar með að skapa skilyrði fyrir fleiri aðila til að hefja starfsemi og veita þeim sem fyrir eru samkeppnislegt aðhald. Frumvarpið er því til þess fallið að skapa skilyrði fyrir aukinni samkeppni og lækka verð til neytenda.“

BGS og FÍB telja afar misráðið að ætla að fella niður þetta skilyrði, og segja samtökin að það hafi skapað aðhald að sölufyrirtækjunum sem hefur síðan stuðlað að því að hér ríkir almennt traust í viðskiptum með notuð ökutæki.

Mikil samkeppni ríki á þessum markaði og seljendur notaðra bíla hafi ekki kvartað undan því að þurfa að afla leyfis til starfseminnar eða sitja námskeið í þeim efnum.

Þegar lög voru fyrst sett árið 1994 um leyfisveitingar fyrir sölu notaðra ökutækja var markmið þeirra að stuðla að neytendavernd og „leysa sem fyrst þau vandamál og erfiðleika sem tengst hafa bifreiðasölu í gegnum árin. Mestu máli skiptir að gera auknar kröfur til þeirra sem vilja stunda slík viðskipti“ sagði í athugasemdum við lagafrumvarpið.

Að mati bæði Bílgreinasambandsins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda eigi þessar röksemdir jafnt við nú og fyrir 25 árum.