S &P 500 vísitalan lækkaði um 3,85% í síðust viku, sem var sú versta á bandarískum hlutabréfamarkaði frá því í byrjun árs 2016. Alls þurrkuðust 945 milljarðar dollara eða því sem nemur 94,6 þúsund milljörðum króna út af markaðnum. CNBC greinir frá .

Mesta lækkunin varð á föstudaginn, þegar markaðsvirði hlutabréfamarkaðarins lækkaði um 511 milljarða dollara. Dow Jones vísitalan lækkaði einnig um 2,5% eða 600 punkta, sem þykir mjög sjaldgæft . Lækkunin í liðinni viku kemur í kjölfar gríðarmikils fjármagnsinnflæðis á hlutabréfamarkaðinn í janúar.

Samkvæmt frétt CNBC skýrist lækkunin af ótta meðal fjárfesta um að stýrivextir í Bandaríkjunum muni hækka of hratt.

Auðæfi 500 ríkustu einstaklinga heims rýrnuðu um 74 milljarða dollara á föstudaginn samkvæmt milljarðamæringavísitölu Bloomberg. Mest var lækkunin hjá Warren Buffett, eða 3,3 milljarðar dollara.