„Ég hef tekið þá ákvörðun að segja skilið við stjórn­mál­in í bili,“ seg­ir Birgitta Jóns­dótt­ir, fyrr­ver­andi þingmaður Pírata, í færslu á Face­book-síðu sinni. Birgitta lét af þing­mennsku í síðustu þing­kosn­ing­um. Áður hafði hún lýst því yfir að síðastliðið kjörtímabil yrði hennar síðasta.

Eft­ir síðustu alþingiskosn­ing­ar lýsti Birgitta því yfir á Face­book-síðu sinni að hún væri ekki hætt í pólitík þó hún væri ekki leng­ur á Alþingi. Ummælin leiddu til vangaveltna um það að hún sóttist eftir því að verða utanþingsráðherra í næstu ríkisstjórn landsins.

Í annarri færslu á Facebook-síðu sinni segist Birgitta ekkert sakna þess að vera í því „skítamixi“ sem nú sé í gangi á sínum fyrrverandi vinnustað. „Megi þessi stjórnmálakreppa standa stutt yfir. Það er í svona kaosi sem allt of mikið af brýnum málefnum falla á milli og týnast,“ segir Birgitta.

Birgitta var alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður árin 2009–2013 fyrir Borgarahreyfinguna (síðar Hreyfinguna). Þá var hún alþingismaður Suðvesturkjördæmis árin 2013 til 2016 fyrir hönd Pírata og alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður milli 2016 og 2017 fyrir sama flokk. Þá gegndi Birgitta formennsku fyrir Borgarahreyfinguna (2009-2010), þingflokks Hreyfingarinnar (2013) og þingflokks Pírata milli 2013 og 2017.