Rafmyntin Bitcoin náði sínu hæsta gengi í sögunni í dag en fyrsti bandaríski kauphallarsjóðurinn (e. exchange-traded fund, ETF) sem fylgir framvirkum bitcoin samningum, hóf göngu sína í gær. Gengi rafmyntarinnar stendur nú í 66,9 þúsund dölum en síðasta met var um miðjan aprílmánuð þegar það fór upp í 64,9 þúsund dali. CNBC greinir frá .

Fjárfestar hafa beðið eftir kauphallarsjóðnum ProShares Bitcoin Strategy með mikilli eftirvæntingu en alls hefur gengi Bitcoin hækkað um meira en 50% í mánuðinum. Gengi sjóðsins hækkaði um 5% á fyrsta viðskiptadeginum í gær.

Kauphallarsjóðir með rafmyntir voru settir á laggirnar í Kanada og Evrópu fyrr í ár. Fjárfestar á þessu sviði binda vonir við að umræddir sjóðir muni örva fjárfestingu í rafmyntum.