Gengi rafmyntarinnar Bitcoin hefur nú náð 2400 dollurum og hefur hækkað um 5,4% það sem af degi. Um er að ræða nýtt met, en fleiri og fleiri veðja á stafræna gullið.

Sérfræðingar í rafmyntum segja að rekja megi verðhækkunina til aukinnar óvissu með stöðu hefðbundna gjaldmiðla sem keyri upp eftirspurn eftir rafmyntum eins og segir í frétt BBC . Aukinn áhugi á Bitcoin í Asíu vegna stefnubreytinga stjórnvalda í Japan og annars staðar í Asíu sem hafa gert viðskipti með Bitcoin auðveldari er einnig talin spila hlutverk í hækkuninni.

Gengi Bitcoin hefur hækkað um tæp 94% síðustu 30 daga og nemur heildarmarkaðsvirði rafmyntarinnar um 40 milljörðum dollara.