Forstjóri Icelandair Group, segir að ef kyrrsetning á Boeing 737 Max 8 flugvéla félagsins dragist á langinn muni það hafa áhrif á félagið eftir því sem nær dregur páskum. „Ef þetta dregst á langinn hefur þetta áhrif á okkur og öll flugfélög sem eru með þessar vélar. Þegar fer að færast nær páskum verður þetta erfiðara því við gerðum ráð fyrir að taka fleiri svona vélar inn í leiðakerfið í vor,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en páskadagur er 21. apríl næstkomandi.

Til skamms tíma ræður Icelandair við kyrrsetninguna flugvélanna með því að nýta aðrar flugvélar í flota Icelandair enda hafa einungis þrjár Boeing 737 Max 8 vélar verið teknar úr flotanum sem samanstendur af 33 flugvélum. Hins vegar mun Icelandair taka við þremur Boeing 737 Max flugvélum í vor og er með þrjár sambærilegar þotur í innleiðingarferli í Keflavík.

Með margar sviðsmyndir í gangi

Icelandair ákvað að kyrrsetja allar þrjár Boeing 737 Max 8 flugvélar sem nú eru í flota félagsins á þriðjudag eftir að bresk flugmálayfirvöld bönnuðu flugvélarnar í sinni lofthelgi. Síðan þá hafa flugvélarnar verið bannaðar í evróskri og bandarískri lofthelgi og Boeing farið fram á að notkun vélanna verði hætt á meðan tildrög flugslyss Ethiopian Airlines á sunnudaginn eru ókunn.

Bogi segir að Icelandair hafi farið að skoða allar sviðsmyndir eftir slysið á sunnudaginn. „Strax og þetta gerðist á sunnudaginn fórum við að vinna að ákveðnum sviðsmyndum og viðbragðsáætlunum og erum með nokkur plön í gangi sem við erum að vinna út frá,“ segir Bogi, spurður út í hvort Icelandair hafi kost á að finna aðrar flugvélar dragist kyrrsetningin á langinn.

Bíða með ákvörðun um bætur

Norwegian Air gaf út í gær að það ætlaðist til þess að Boeing myndi bæta flugfélaginu upp það tjón sem það yrði fyrir vegna kyrrsetningar vélanna en Norwegian Air er með átján Boeing 737 Max 8 flugvélar í notkun. „Við munum taka ákvörðun þegar allar upplýsingar liggja fyrir,“ segir Bogi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .