Hæstiréttur hefur hafnað kæruleyfi Bjarka Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og síðar framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi, í máli sem hann höfðaði til ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar. Úrskurður Landsréttar um frávísun málsins stendur því.

Málið teygir anga sína aftur til áranna 2001 og 2003. Þá gerði hann samning við bankann um kaup á bréfum í honum en þau voru bundin ýmsum kvöðum. Til að mynda var honum óheimilt að selja hlutina fyrr en að þremur árum liðnum og ef hann segði skilið við fyrirtækið var því heimilt að leysa þau til sín á ný.

Sjá einnig: Bjarki ekki laus undan skattinum

Árið 2005 sendi ríkisskattstjóri (RSK) bréf til bankans til að forvitnast um kauprétti og sölurétti að hlutabréfum í honum svo og önnur hlutabréfaviðskipti milli Kaupþings og stjórnenda. Bréfi RSK var svarað innan mánaðar en ekkert aðhafst af hálfu skattsins fyrr en í febrúar 2009. Það ár var Bjarka tilkynnt að opinber gjöld hans hefðu verið endurákvörðuð og honum færðar til tekna munurinn á verði bréfanna er hann fékk þau og þegar hann hefði getað selt þau. Gjaldstofnar til skatta hækkuðu við þetta um rúmlega 290 milljónir króna. Þá var 25% álagi bætt við. Skuldaði Bjarki því 155 milljónir í opinber gjöld vegna þessa.

Bjarki leitaði til dómstóla til að fá þann úrskurð felldan úr gildi. Héraðsdómur hafnaði kröfum hans en Hæstiréttur féllst á þær í mars árið 2011. Undir lok þess árs barst honum ný ákvörðun frá RSK. Þar sem ekki var unnt að endurákvarða opinber gjöld lengra en sex ár aftur í tímann var samningurinn frá 2001 ekki undir.

„Þetta er ekki eins há fjárhæð og síðast. Þetta er þó umtalsverð fjárhæð sem lögð er á mig núna og ef svo fer að ég verð að greiða þetta mun það væntanlega taka mig mjög langan tíma,“ sagði Bjarki við Viðskiptablaðið í janúar 2012 af þessu tilefni.

Krafan fyrnd er málið var höfðað

Yfirskattanefnd (YSKN) kvað upp úrskurð um efnið í desember 2013. Aðalkröfu Bjarka um að úrskurður RSK yrði felldur úr gildi var hafnað. Hins vegar féllst meirihluti YSKN á varakröfu hans um lækkun gjaldstofnsins og að 25% álag á hann yrði fellt niður. Minnihluti nefndarinnar vildi taka aðalkröfu Bjarka til greina.

Í desember í fyrra höfðaði Bjarki mál til ógildingar á téðum úrskurði YSKN. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi á þeim grundvelli að krafan hafi verið fyrnd þegar málið hafi verið höfðað. Fyrningarfrestur hennar hafi verið fjögur ár en fimm ár hafi liðið frá úrskurði YSKN og þar til það var höfðað. Landsréttur staðfesti þann úrskurð héraðsdóms. Þá var Bjarka gert að greiða samtals 700 þúsund í málskostnað vegna meðferðar í héraði og fyrir Landsrétti.

Bjarki sótti um kæruleyfi til Hæstaréttar vegna þessa. Hæstiréttur hafnaði því hins vegar að taka málið fyrir þar sem kæruheimild skorti í lögum um meðferð einkamála eða öðrum lögum. Frávísun Landsréttar og úrskurður YSKN standa því óhreifð.