Sjávargrund ehf. félag sem er í 80% eigu fjárfestisins og fyrrverandi bankastjórans Bjarna Ármannssonar hefur keypt allt hlutafé hreinlætisvörusalans Tandurs. Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samrunann en Bjarni á 80% hlut í Sjávargrund í gegnum félag sitt Sjávarsýn ehf.

Sjávarsýn á meðal annars 100% hlut í Gasfélaginu sem flytir inn fljótandi gas og gashylki, Ísmar sem sérhæfir sig í tækjabúnaði til landmæling, vélstýringa og lasertækni og Tölvuþjónustunni. Auk þess á Sjávarsýn hluti í félögunum S4S sem er eigandi Ellingsen og Hliðarspori sem rekur húsnæði þar sem verslanir S4S eru staðsettar.

Taldi Samkeppniseftirlitið að samrunaaðilar störfuðu á ótengdum mörkuðum og ykju því ekki markaðshlutdeild sína eða styrktu hana í kjölfar samrunans. Þá yrði engin breyting á fjölda keppinauta eða samþjöppun á hlutaðeigandi mörkuðum málsins.

Tandur hf var stofnað í Reykjavík þann 20. maí 1968. Starfsemi félagsins snýst um framleiðslu, sölu og dreifingu á hreinlætisvörum til fyrirtækja og opinberra stofnana.