Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur að kostnaður við útboð Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut á Íslandsbanka í síðasta mánuði hafi verið mjög hár.

Bankasýslan hefur greint frá því að kostnaður við útboðið hafi numið 1,4% af 52,7 milljarða söluandvirði. Gera má því ráð fyrir að kostnaðurinn hafi verið í kringum 740 milljónir króna.

„Mér finnst það mjög há þóknun,“ sagði Bjarni í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun. „Ég hef verið að spyrjast fyrir um þennan þátt málsins og menn segja að þetta sé svona í efri kantinum en sumum finnst þetta alltof hátt.

Sjá einnig: Kostnaður meiri en í fyrri einkavæðingum

„Í samhengi við verkefnið finnst mér þetta vera nokkuð há þóknun. Ég skal bara alveg fallast á það. Þetta er þá kannski einn liður sem við höfðum í huga þegar við erum að hugsa: heyrðu kannski eigum við að gera þetta einhvern veginn öðruvísi.“

Bjarni ítrekaði þó að fjármálaráðuneytið hafi ekki haft aðkomu að samningum við söluráðgjafa. „Við setjum ekki uppi með gagnrýni á t.d. söluþóknun sem við höfðum enga aðkomu að að semja um.“

Viðskiptablaðið fjallaði fyrr í mánuðinum um viðbrögð markaðsaðila við útboðinu. Viðmælendur blaðsins nefndu aðkomu stórra erlendra fjármálafyrirtækja og sölutryggingu sem kostnaðarsamar ákvarðanir sem velta megi fyrir sér hvort þörf hafi verið á.

Tók viku fyrir Bankasýsluna að afhenda listann

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi ræddi einnig um að birtingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á lista yfir alla þátttakendur í útboðinu eftir að Bankasýslan hafði mælt gegn birtingunni með vísan í lögfræðiálit frá LOGOS. Bjarni var spurður að því hvort afstaða Bankasýslunnar til birtingarinnar væri ágreiningsefni.

„Ég var kannski ekkert sérstaklega ánægður með að það tæki heila viku eftir að við höfðum gengið út frá því að við fengjum niðurstöðu útboðsins afhenta í fjármálaráðuneytið,“ sagði Bjarni.

Hann hafi því ákveðið að senda formlegt bréf á Bankasýsluna þann 30. mars, rúmri viku eftir útboðið, þar sem ráðuneytið óskaði eftir að fá afhenta úthlutun í útboðinu.

„Við fengum þau svör að það væri allir annmarkar á því að birta þessi svör. Við sögðum bara sem svo: Heyrðu, það er allt annað mál hvort þetta verður birt eða ekki. En við í ráðuneytinu hljótum að fá niðurstöðu útboðsins. Það getur ekki annað verið. Það tók heila viku,“ sagði Bjarni.