Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að samkomulag um þinglok, sem náðist við alla flokka nema Pírata og Samfylkingu, hafi strandað á því að Píratar vildu lægri samþykkisþröskuld fyrir breytingar á stjórnarskrá en var síðast þegar samþykkt var tímabundið breytingarákvæði.

Það sem var samþykkt var að:

  • Fella uppreist æru úr hegningarlögum
  • Breytingar á lagaákvæðum sem varða hælisleitendur koma á dagskrá
  • Önnur mál varða kosningar eða formsatriði

Þetta kemur fram á facebook síðu forsætisráðherra, en þar segir hann jafnframt að nokkrir þingmenn hafi farið mikinn í gærkvöldi því breytingar á stjórnarskránni hafi ekki verið hluti samkomulagsins, enda þurfi að vanda þar til verka og gefa því tíma.

„Er það svo að þeir sem fara fram á vandað verklag við breytingar á stjórnarskrá verðskuldi ásakanir um að skeyta engu um líf barna eða fálæti vegna kynferðisbrota? Ég hélt við hefðum fundið botninn í umræðu um þau mál í síðustu viku, en lengi getur vont versnað,“ segir Bjarni.

„Þannig segir Smári Mccarthy sem nýlega var í fréttum fyrir rætnar samlíkingar við mál Jimmy Savile, að ég hafi með aðkomu minni að þinglokasamningum hótað „að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur."

Afsakið, en er ekki bara komið ágætt af svona löguðu? Hvað eiga svona skrif að þýða? Er þetta framlag til bættrar þjóðfélagsumræðu - leiðin til að endurheimta traust á stjórnmálum?“