Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur svarað gagnrýni frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa haldið því fram að hann hafi brotið lög við sölumeðferð á Íslandsbanka þar sem hann tók ekki afstöðu til hvers og eins tilboðs í útboði Bankasýslunnar.

„Þetta er alrangt. Fyrst má benda á hið augljósa; í nýafstöðnu útboði voru tilboð á þriðja hundrað og í frumútboðinu skiptu þau tugþúsundum. Telja þingmennirnir raunverulega að markmið laganna hafi verið að ráðherra færi yfir hvert einasta tilboð og veldi eftir eigin höfði?“ skrifar Bjarni í færslu á Facebook.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt því fram í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að Bjarni hefði farið á mis við lög með því að leggja ekki mat á hvert tilboð í útboðinu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tók í sama streng í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Bjarni segir að Samfylkingin og þá sérstaklega Oddný eigi að þekkja markmið laganna best enda hafi hún mælt fyrir málinu sem fjármálaráðherra á sínum tíma. Bjarni vitnar í kjölfarið í framvarpið sem Oddný lagði fyrir Alþingi árið 2012:

„Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölumeðferð verði meðal annars að undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, annast samningaviðræður við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.“

Í greinargerð frumvarpsins segir að „gert sé ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta“ .

„Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram,” segir í greinargerðinni.

Bjarni segir mikilvægt og eðlilegt að Ríkisendurskoðun skoði spurningar sem að hans sögn er mjög skiljanlegt að hafi vaknað síðustu vikur.

„Það er hins vegar líka mikilvægt að leiðrétta augljósar rangfærslur stjórnarandstöðunnar, en þar er af nógu að taka síðustu daga,“ skrifar Bjarni.