Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að boltinn sé nú hjá kjósendum eftir að hafa fundað með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Bjarni sagði á fundinum að hann hafi lagt áherslu á það að bregðast hratt við til þess að koma skipulagi á hlutina. Forsætisráðherra lagði áherslu á það að fá traust og festu í landinu. Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um, þá verða þingkosningar 28. október, en fyrr í morgun samþykkti forseti Íslands þingrofstillögu forsætisráðherra eftir fund þeirra á Bessastöðum.

Enn fremur tók Bjarni fram að atburðarás síðustu daga hafi sýnt bresti í smáflokkakerfinu. Forsætisráðherra mat það svo að staðan hafi kallað á að boðað yrði strax til kosninga. Hægt er að horfa á myndbandsupptöku af ræðu Bjarna á vef Ríkisútvarpsins .

Forsætisráðherra lýsti kveðjustund sinni og ráðherrum Bjartrar framtíðar svo:„Við féllumst í faðma þegar við kvöddumst og þökkuðum fyrir gott samstarf og heiðarlegt. Við þurftum að sætta okkur við það að við litum á þennan atburð ólíkum augum og svo heldur lífið áfram,“