Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það óvissuástand sem skapast hefur á Vestfjörðum í kjölfar úrskurðar umhverfis- og auðlindarmála, vera með öllu óviðunandi. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu hans. Hann segir jafnframt að ekki séu eingöngu hagsmunir einstakra rekstraraðila undir heldur alls samfélagsins fyrir vestan.

Sömuleiðis þarf að tryggja að sanngjarnar reglur gildi um rétt til að bæta úr ágöllum í leyfisumsóknarferli í þessu máli og til frambúðar. Skýrar reglur, meðalhóf og sanngjarn málsmeðferðartími eru nokkrar af grunnreglum í því stjórnkerfi sem við viljum reka, stendur í færslunni.

Í lokinn vísar Bjarni í grein í stjórnarsáttmálanum sem segir að mikilvægt sé að hraða málsmeðferð þar sem það er hægt til dæmis með því að styrkja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Ríkisstjórnarflokkarnir séu sammála um að endurskoða ákvæði um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála á fyrri stigum leyfisveitingar ferlisins þannig að málsmeðferð geti orðið hraðari án þess að gengið sé á þennan rétt.