„Vinnumarkaðslíkanið okkar er í raun ónýtt,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í gærkvöldi. Bjarni lagði mikla áherslu á kjarasamninga. Forsætisráðherra sagði að allir viðsemjendur þyrftu að taka ábyrgð. Hann spurði jafnframt hver gæti mótmælt því að líkanið væri ónýtt, þegar hver höndin væri upp á móti annarri, og að það sé enginn samvinna til staðar.

„Það hvað okkur hefur lítið miðað síðustu árin við að bæta úr þessu er stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála um þessar mundir,“ sagði forsætisráðherra.

Bjarni tók fram að þegar við leitum góðra fordæma í öðrum löndum, þá sjáum við hér á Íslandi að það sé grundvallaratriði kjaraviðræðna að hefja samtalið á því að sammælast um hve mikið laun geta hækkað heilt yfir svo stutt sé við efnahagslegan stöðugleika. „Enginn vísir er að slíku samkomulagi hér á landi eftir að það er orðin sérstök íþrótt að tala niður SALEK samkomulagið og lýsa yfir andláti þess,“ tók hann einnig fram. Hægt er að sjá stefnuræðu forsætisráðherra í heild sinni á vef Ríkisútvarpsins .

Um þessar mundir eiga 17 aðildarfélög BHM í kjaraviðræðum við ríkið. Auk þess losna kjarasamningar grunn-, leik- og framhaldsskólakennara síðar á þessu ári. Alls er um að ræða kjarasamninga yfir tíu þúsund starfsmanna hjá hinu opinbera.