Milljarðamæringurinn Warren Buffett, sem hefur meðal annars verið kallaður „spekingurinn frá Omaha,“ lítur björtum augum á framtíð viðskiptalífsins í Bandaríkjunum og telur að fyrirtæki vestanhafs hafi möguleika á því að skapa talsverðan auð á næstu misserum. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Buffett sagði það næsta víst að gengi bandarískra hlutabréf muni hækka umtalsvert á næstu árum. Í bréfi Buffett til hluthafa fyrirtækisins Bershire Hathaway, minnist Buffett þó ekki á Donald Trump, en talaði þó um hóp hæfileikaríkra og metnaðarfullra innflytjenda sem gætu hjálpað bandaríska hagkerfinu að blómstra.

Fjárfestirinn frægi lagði líka á herslu á það að börn sem fæðast í Bandaríkjunum í dag eru þau allra heppnustu.

Hagnaður Bershire Hathaway, fyrirtækis Buffett, jókst um 15% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og nam 6,3 milljörðum dollara á tímabilinu. Hægt er að lesa bréf Buffett til fjárfesta hér.