Til að gæta að ýtrustu sóttvörnum býður hópferðafyrirtækið Gray Line 10 manna hópum í „búbbluferðir“ að upphafi gönguleiðarinnar á gosstöðvarnar í Geldingadal. Fyrirkomulagið miðast við allt að 10 manna hópa sem taka sig saman um ferðina.

Hópferðabíll Gray Line kemur og sækir hópinn á umsömdum stað og tíma og ekur með hann að upphafi gönguleiðarinnar. Bíllinn sækir hópinn svo á sama stað að göngu lokinni og skilar á upphafsstað.

„Með því að bjóða fólki að vera í sinni eigin smitvarnar„búbblu“ og njóta þess að upplifa eldgosið saman sláum við tvær flugur í einu höggi. Í leiðinni losnar fólk við langar göngur til og frá bílastæðum og sest inn í heitan bíl í lok ferðarinnar. Þetta fyrirkomulag er betra upp á smitvarnir að gera en áætlunarferðir þar sem ótengt fólk er saman í rútu á föstum tímasetningum,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, í fréttatilkynningu.