Ingvar Smári Birgisson gefur kost á sér til formennsku Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) á 44. þingi sambandsins sem fer fram á Eskifirði dagana 8. til 10. september næstkomandi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá framboðinu.

Ingvar er á 24 ára gamall og uppalinn í Reykjavík. Hann starfar hjá Nordik lögfræðiþjónustu en hann lauk BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og stundar nú meistaranám í lögfræði við sama skóla. Hann lauk stúdentsprófi af fornmálabraut Menntaskólans í Reykjavík árið 2013. Ingvar starfaði áður sem blaðamaður á Morgunblaðinu.

Ingvar hefur setið í stjórn SUS frá árinu 2013 og verið afar virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Þá gegndi hann formennsku í Heimdalli, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 2013 til 2015 en Heimdallur er stærsta aðildarfélag SUS.
Ingvar hefur einnig verið virkur í starfi alþjóðasamtakanna Students For Liberty og skipulagt fjölmargar alþjóðlegar ráðstefnur á þeirra vegum.

Ingvar leggur áherslu á að SUS sé mótandi afl í pólitískri umræðu og veiti jafnframt forystu Sjálfstæðisflokksins og kjörnum fulltrúum verðugt aðhald í störfum sínum. Sjálfstæðisflokkurinn byggi á frelsi einstaklingsins til viðskipta og athafna og ekki megi missa sjónar af þeim grunngildum í pólitísku amstri.

„Ég ætla að efla starf ungra sjálfstæðismanna enn frekar um landið allt en ég tel virka þátttöku ungs fólks að stjórnamálastarfi skipta sköpum fyrir framtíðina. Í því skyni vil ég tryggja ungu fólki brautargengi í komandi sveitarstjórnarkosningum innan Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ingvar.

Sambandsþing SUS eru haldin á tveggja ára fresti og því kosið til tveggja ára í senn. Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og núverandi formaður SUS, sækist ekki eftir endurkjöri.

Bjóða sig fram varaformannssætin

Andri Steinn Hilmarsson býður sig fram til varaformanns Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Andri Steinn er 24 ára gamall úr Kópavogi. Hann starfar sem blaðamaður og er varabæjarfulltrúi í Kópavogi. Andri stundar nám í hagfræði við Háskóla Íslands og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 2013.

Hann var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum og gegndi formennsku í Tý, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Kópavogi, árin 2013 til 2015. Þá hefur hann gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og situr nú í umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogsbæjar en var áður formaður frístunda- og forvarnarnefndar bæjarins.

Sigríður Erla Sturludóttir býður sig fram til 2. varaformanns Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Sigríður Erla er 25 ára gömul og uppalin í Stykkishólmi þar sem hún býr enn. Hún starfar sem flugfreyja hjá Icelandair og stundar nám í lögfræði við Háskóla Íslands.

Sigríður lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 2012 en meðfram námi hefur hún einnig starfað sem aðstoðarkona í NPA, notendastýrðri persónulegri aðstoð, hjá ungri konu með fötlun.

Sigríður Erla gegndi formennsku í Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands, á síðasta ári og var forseti Nemendafélags Verslunarskóla Íslands árin 2011-2012. Hún hefur einnig verið virki í starfi Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin og sat í stjórn SUS árin 2013-2015 og gegnir nú formennsku í Sif, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Stykkishólmi.