Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur tilkynnt að það hyggist bjóða upp á svefnpláss fyrir farþega í farangursrými nýrra flugvéla sinna frá árinu 2020. Mun svefnrýmið passa inn í farþegarými flugvélanna en dótturfélag franska félagsins Safran, Zodiac Aerospace er samstarfsaðili Airbus í verkefninu.

„Fyrstu um sinn geta flugfélög valið úr ákveðnum lausnum frá árinu 2020 í A300 vélunum,“ en hægt verður að skipta út svefnhylkjunum fyrir farangursrými eftir hentugleika. Jafnframt er til skoðunar að hægt verði að hafa svefnhylkin í A350 XWB flugvélunum.

Segja fyrirtækin að með þessari lausn aukist ekki einungis þægindi farþeganna heldur gefi það flugfélögunum aukin tækifæri til tekjuöflunar að því er fram kemur á vef Guardian .

Flugfélagið Air France-KLM hefur viðrað svipaðar hugmyndir fyrir lággjaldafélagið Joon, sem er dótturfélag flugfélagsins. Þegar hugmyndirnar komu fram í nóvember 2016 var þó miðað við að svefnhylkin væru annað hvort í farangursgeymslum undir eða fyrir ofan farþegarýmið.