Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir kallar eftir umhverfisvænum fjárfestingatækifærum í pistli á vefsvæðinu Medium. Hann segir síðasta ár sem heimurinn vaknaði til vitundar um umhverfisverndar fyrir alvöru.

Undanfarna áratugi hafi mikil vinna farið í að sannfæra fjárfesta, frumkvöðla og neytendur um mikilvægi þess að nýta náttúruauðlindir betur og vinna gegn sóun, sem sé farin að bera ávöxt. Eins og aðrir Íslendingar þekki hann vel hve vanmáttugur maðurinn getur verið fyrir náttúruöflunum.

Björgólfur segist sjálfur hafa tekið þátt í að leita að fjárfestingaverkefnum, sem hafi jákvæð umhverfisáhrif sem ráðgjafi Princeville Capital í sjóði sem ber nafnið Climate Technology Fund. Þá fjárfesti Björgólfur Thor sjálfur með samstarfsfélögum sínum hjá Novator í sjálfbærni tengdum verkefnum.

Þar hafi hann átt þátt í að búa til nýja tegund í rekstri, sem hann nefnir „Cause Corporation“ sem í lauslegri þýðingu mætti þýða sem málstaðarfyrirtæki. Fræg ummæli Milton Frideman um að eini tilgangur fyrirtækja sé að skila hagnaði fyrir eigendur sína eigi ekki lengur við.

Hans fyrsta sjálfbærniverkefni var með David de Rothschild í lífsstílsvörumerkinu The Lost Explorer. Það félag hafi orðið fyrsta málstaðarfélagið. Málstaðarfélög fjárfesti hagnaði félagsins í þeim málstað sem félagið berst fyrir.

Björgólfur segir að von sín sé að sá þungi sem verið hafi í umhverfisvernd og baráttunni gegn loftslagsbreytingum haldi áfram árinu 2020. Hann vonist til að frumkvöðlar finni nýjar leiðir og þrói nýjar vörur sem auðveldi baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Fjárfestar séu tilbúnir að styðja við slíkar hugmyndir, þar með talið hann sjálfur.