Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og formaður Samtaka atvinnulífsins, var harðorður í garð vaxtastefnu Seðlabankans á Fjármálaþingi Íslandsbanka sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica í hádeginu í dag.

„Mér finnst það gjörsamlega út í hött að við séum að horfa á þetta háa vaxtastig. Horfum á allt aðra stöðu í nágrannalöndum sem við erum að berjast við. Ég tel að Seðlabankinn hafi gert afdrifarík mistök á undanförnum mánuðum”, sagði Björgólfur og bætti við að hann teldi að lækkun vaxta mundi hægja á styrkingu krónunnar: „ Gleymum grunnstoðunum og á hverju við lifum. Ferðamaðurinn er ekki eins og fiskurinn í sjóinn, því hann veltir fyrir sér kostnaðinum. 2,4 milljónir ferðamanna að koma til landsins? Mér finnst vera margt í spilunum sem bendir á að við séum komin á efri mörkin. Ég er ekki svartsýnn fyrir hönd míns félags en mér finnst styrking á gengi krónunnar og vaxtastefnan galin. Punktur,” sagði Björgólfur við töluverða kátínu í þéttsetnum salnum.

Þetta kom fram í umræðum um efnahagshorfur og áhrif þeirra á rekstur íslenskra fyrirtækja á Fjármálaþingi Íslandsbanka í dag. Í umræðunum tóku þátt auk Björgólfs þau Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Fundarstjóri var Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka.