Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Íslandsbanka hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu hjá bankanum en frá þessu greinir hann á Facebook síðu sinni.

„Í dag tilkynnti ég að ég ætli að kveðja Íslandsbanka eftir þrjú frábær ár. Þegar ég kom inn í framkvæmdastjórnina fyrir þremur árum vildi Birna að ég yrði afl til breytinga. Ég held ég hafi algjörlega verið breytingaaflið sem vonast var eftir. Ég hef verið vakinn og sofinn yfir því að búa til betri banka. Ekkert var auðvelt, flest skemmtilegt,“ segir Björgvin Ingi í fræslunni.

Íslandsbanki réðst í töluverðar skipulagsbreytingar síðastliðið vor en Björgvin Ingi segist stoltur af því verkefni. „Ég er sérlega stoltur af skipulagsbreytingunum sem ég vann að í vor með úrvalshópi. Þar gjörbreyttum við skipulagi bankans og gerðum hann miklu betur fallinn til að takast á við tækifæri og áskoranir framtíðar,“ segir hann.