Björk mun bjóða upp á nýjustu plötuna sína gegn greiðslu í rafmyntinni Bitcoin að því er kemur fram á vef breska dagblaðsins Independent . „Íslenska söngkonan mun líka taka við þremur minna þekktum rafmyntum: litecoin, dash og AudioCoin,“ segir í fréttinni.

Þeir sem kjósa hefðbundnari greiðslumöguleika geta líka keypt plötuna með kreditkortum eða PayPal. Platan mun bera nafnið Utopia og kemur í sölu þann 24. nóvember en búið er að opna fyrir forpantanir.

Í fréttinni segir að Björk sé þekkt fyrir nýjungagirni og að árið 2011 hafi hún gefið frá sér plötuna Biophilia í formi snjallforrits. Útgáfufélag hennar, One Little Indian, er í samstarfi við fyrirtækið Blackpool sem staðsett er í London og sérhæfir sig í rafmyntum.

Aðrir listamenn hafa einnig gælt við tilhugsunina um að selja verk sín fyrir bitcoin. Í desember 2013 sagði m.a. rapparinn Snoop Dog á Twitter síðu sinni að „næsta platan mín verður til sölu fyrir bitcoin og afhent með dróna.“ Þá tilkynnti söngkonan Mel B árið 2013 að hún hefði náð samningum við bitcoin námufyrirtækið CloudHashing um að taka við bitcoin fyrir endurkomu á lagi sínu „For once in my life“.