Björn Gíslason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stefnu hugbúnaðarhúss og mun hann hefja störf í ársbyrjun 2021. Björn tekur við starfinu af Matthíasi Rögnvaldssyni, stofnanda Stefnu, sem hefur verið framkvæmdastjóri nánast frá upphafi, en félagið var stofnað árið 2003. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Björn hefur undanfarin ár starfað sem fjárfestingastjóri hjá KEA fjárfestingafélagi. Áður var hann verkefna- og rekstrarstjóri hjá Stefnu og fram að því sjóðsstjóri hjá Íslenskum verðbréfum. Á meðal þeirra fyrirtækja sem Björn hefur setið í stjórn hjá má nefna Þekkingu, Þulu, Vök baths og Ferro Zink.

„Björn er sjávarútvegsfræðingur með MBA gráðu frá Copenhagen Business School, M.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá sama skóla,“ kemur fram í tilkynningunni.

Matthías mun halda áfram að vera einn eigenda. Hann tekur við stjórnarformennsku í félaginu og mun sinna ráðgjöf og viðskiptaþróun. Alls starfa 32 hjá Stefnu og verða fleiri ráðnir til félagsins á næsta ári, að því er segir í tilkynningu.

„Þetta er mjög spennandi tækifæri enda hefur Stefna vaxið mjög á undanförnum árum og hefur verið að gera frábæra hluti á sínu sviði,” segir Björn Gíslason.  „Ég hlakka mikið til að endurnýja kynni mín við það frábæra starfsfólk sem er að finna hjá Stefnu, og taka þátt í áframhaldandi þróun félagsins.“