Björn Ingi Hrafnsson og Ægir Arnarsson hafa kært forsvarsmenn Dalsins ehf, þá Árna Harðarson og Halldór Kristmannsson sem og lögmann þeirra, Bjarka Diego, til héraðssaksóknara að því er Fréttablaðið greinir frá.

Ákært er fyrir fjársvik, skilasvik og skjalabrot annars vegar vegna förgunar lánasamninga vegna lánveitinga Dalsins til Pressunnar, eftir að tryggingabréf höfðu fengist en greiðslan aldrei verið innt af hendi. Einnig er Árni kærður fyrir fjárkúgun og ólögmæta þvingun fyrir að hafa þvingað Björn Inga til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir 50 milljóna láni Aziq fjárfestinga til Kringlusamninga.

Loks er í kærunni því lýst að þremenningarnir hafi blekkt Björn Inga og Arnar til að undirrita samkomulag um riftun á kaupsamningi um hluti í Birtingi.

Hafi yfirskin undirritunarinnar verið að um málamyndagerning væri að ræða sem einungis ætti að sýna kröfuhöfum Pressunnar, en það hafi síðan verið nýtt til að yfirtaka kaupsamning um Birting og þann hlut sem Pressan ehf. hafði þegar greitt fyrir.

Það hefði verið gert án endurgjalds með beitingu blekkinga og rangfærslu skjala, þrátt fyri að yfirvofandi væri óumflýjanlegt gjaldþrot Pressunnar. Eru rakin í kærunni tölvupóstsamskipti milli kærenda og hinna kærðu til vitnis um að riftunarskjalið hafi aldrei verið ætlað til nýtingar í lögskiptum.

„Eins og við ræddum áðan þá geymir Bjarki skjalið en við gætum þurft að sýna það ákveðnum aðilum og gerum það þá á skrifstofu BBA en við skulum ekki senda þetta á milli í meilum,“ segir í pósti frá 8. maí 2017.

Tíu dögum eftir þetta hafi starfsmönnum Pressunar verið tilkynnt að kaupin hefðu gengið til baka, og í lok mánaðarins var tilkynnt að Dalurinn væri orðinn eigandi Birtings að fullu.