Miðflokkurinn er nú orðinn stærri en bæði Píratar og Samfylking meðan Flokkur fólksins nær ekki lengur inn á þing. Miðflokkurinn er nú með nánast sama fylgi og Flokkur Fólksins mældist með í byrjun september.

Þetta er samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem sýnir jafnframt að Björt framtíð, flokkurinn sem sleit ríkisstjórninni aðfaranótt föstudagsins 15. september, er við það að þurrkast út, enda kominn niður í 2,1% fylgi og engan þingmann.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá mældist Flokkur fólksins hæst 3. september síðastliðinn, tæpum tveim vikum fyrir stjórnarslit, í tæplega 11%, sem er sama fylgi og Framsóknarflokkurinn var með þá. Miðflokkur Sigmundar Davíðs er nú með 10,7% meðal Flokkur fólksins er kominn niður í 3,7%. Framsóknarflokkurinn er hins vegar með 7,5% og virðist lækkun flokksins hafa stöðvast í kjölfar úrsagnar Sigmundar Davíðs úr flokknum í aðdraganda kosninganna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í kjölfar stjórnarslita ákvað Sigurður Ingi formaður flokksins að ganga ekki til liðs við ríkisstjórnina þó hann sagði pólítískan óstöðugleika afleitan fyrir landið, heldur hætta á kosningar. Ekki virtist þó gróið um heilt milli hans og Sigmundar Davíðs en á þessum tíma var uppi orðrómur um að sátt geti náðst um að Sigmundur Davíð myndi leiða Framsóknarflokkinn í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Viðreisn sleikir nú 5% markið til þess að fá uppbótarþingmenn, en hvorki Dögun, Alþýðufylkingin, Húmanistaflokkurinn né Þjóðfylkingin, mælast með teljandi fylgi. Um 9% sögðust myndu skila auðu meðan 10% sögðust vera óákveðin og 12% svöruðu ekki.

Skipting atkvæða og þingmanna samkvæmt nýjustu könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis er sem hér segir:

  • Vinstrigræn með 27% og 19 þingmenn
  • Sjálfstæðisflokkurinn með 22,2% og 15 þingmenn
  • Miðflokkurinn með 10,7% og 7 þingmenn
  • Samfylkingin með 10,4% og 7 þingmenn
  • Píratar með 10% og 7 þingmenn
  • Framsóknarflokkurinn með 7,5% og 5 þingmenn
  • Viðreisn með 5,0% og 3 þingmenn
  • Flokkur fólksins með 3,7% og engan mann líkt og nú
  • Björt framtíð með 2,1% og missti sína þrjá þingmenn.