Úti af Norðurlandi er uppstreymissvæði þar sem kaldur norðlægur sjór mætir heitum suðlægum straum og skapar þau fengsælu fiskimið sem liggja norðlenskum sjávarútvegi til grundvallar. Fiskimiðin eru jafn auðug í dag og þau voru þegar sjávarútvegurinn hvarf frá því að vera bændur sem ýttu bátum úr vör og tók á sig nútímamynd með tæknivæðingu og alþjóðlegum viðskiptum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag eru varla til fiskimið sem eru nýtt á jafn skilvirkan og hagkvæman hátt eins og fiskimiðin fyrir norðan lands, hvort sem litið er til veiða og vinnslu afurða eða flutning og dreifingu vörunnar til neytenda.

Eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki Íslands er leiðandi í sjávarútvegi á alþjóðlega vísu. Heildareignir Samherja árið 2017 námu 134 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var tæp 70% en það ár náði styrking krónunnar hátindi í síðustu uppsveiflu. Samanlagðar tekjur dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum innan samstæðu Samherja námu um 77 milljörðum króna og hagnaðurinn af rekstri nam 14,4 milljörðum króna. Rúmur helmingur starfseminnar er erlendis en Samherji er í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddu félagið og starfsmenn þess um 5,1 milljarð til hins opinbera árið 2017.

Skipafloti Samherja hefur verið endurnýjaður að stórum hluta síðastliðin ár og er óhætt að segja að hvað varðar hönnun og tækni og aðbúnað séu nýju skipin í fremstu röð. Þá er nýja fiskvinnsla félagsins á Dalvík eitt skýrasta dæmið um innreið fjórðu iðnbyltingarinnar hér á landi en þar hefur aukin sjálfvirkni- og vélvæðing leyst marga mannshöndina af hólmi.

Bláa hagkerfið fyrir Norðan

Þorsteinn Már Baldvinsson hefur leitt Samherja frá stofnun fyrirtækisins árið 1983 og stendur enn í brúnni hjá fyrirtækinu. Í viðtali við sérblað Frjálsrar verslunar um fjórðu iðnbyltinguna talar Þorsteinn um mikilvægi þess að sjávarútvegurinn og framlag atvinnugreinarinnar til samfélagsins sé metið í samhengi þess stóra hagkerfisins sem hvílir á grunni veiðanna eða það sem hann kýs að kalla bláa hagkerfið.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnulíf á Norðurlandi sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .