Viðreisn vill að rekstur bílastæðahúsa og innheimta bílastæðagjalda í Reykjavíkurborg verði færð yfir til einkaaðila. Jafnframt telur flokkurinn að réttast væri að allur akstur Strætó og rekstur vagnaflotans væri á höndum einkaaðila og að starfsemi Sorpu yrði boðin út. Þetta segir Pawel Bartoszek, sem skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík, í aðsendri grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

„Einkavæðing sem faglega er staðið að er ekki vond hugmynd,“ segir Pawel og vísar í sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar hafi tekist „með stórkostlegu klúðri“ að skemma hugmyndina um einkavæðingu.

Hann segir Viðreisn vera þeirra skoðunar að rekstur bílastæðahúsa og innheimta bílastæðagjalda í borginni mætti færast alfarið yfir til einkaaðila. „Tæknin er alltaf að breytast og ólíklegt er að bílastæðalausn sem búin væri til frá grunni í dag fæli í sér hjörð eftirlitsmanna sem gengu um bæinn og sektuðu bíla.“

Einnig telur Pawel að allur akstur á vegum Strætó ætti að vera á höndum einkaaðila sem sjá þá um fjárfestingar í bílaflota. Strætó sjálft myndi þá fyrst og fremst halda utan um leiðakerfi, farmiðasölu og almennt utanumhald.

Þá segir hann að bjóða ætti út hluta starfsemi Sorpu og jafnvel selja valda þætti. Á næsta kjörtímabili munu íslensk sveitarfélög þurfa að reisa nýja sorpbrennslustöð. Viðreisn vill þar fara svokallaða PPP-leið, þar sem stöðin er reist í samstarfi einkaaðila og opinberra aðila.

„Ein rök fyrir opinberum rekstri eru þau að kostnaður sparast því vaxtakostnaðurinn vegna fjárfestinganna er lægri. Hitt gleymist þó stundum að hann er lægri vegna þess að lánveitendur eru með veð í tekjum sveitarfélagsins. Áhættan lendir því á skattgreiðendum eins og sást með gas- og jarðgerðarstöðina nýverið.“

Pawel kemur einnig inn á Sundabrautina og vill að reynslan frá einkaframkvæmdinni við Hvalfjarðargöngin verði nýtt. Þeir sem fari um Sundabrautina greiði gjöld sem fari í að borga upp framkvæmdina í tiltekinn tíma. Að því loknu myndi fjárfestingin renna til hins opinbera.

Hafnar gagnrýni um malbikunarstöð borgarinnar

Eignarhald borgarinnar á Malbikunarstöðinni Höfða hefur verið gagnrýnt, sérstaklega frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, í ljósi þess að félagið starfar á samkeppnismarkaði. Tillögu Sjálfstæðisflokksins um að félagið yrði sett í söluferli var vísað frá í borgarstjórn í maí síðastliðnum.

Sjá einnig: „Algjör steypa“ að borgin framleiði malbik

Pawel segir að borgin ætti að selja Malbikunarstöðina Höfða og að Viðreisn hafi sett málið á oddinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Jafnframt segir hann að flokkurinn hafi fylgt málinu á eftir en nú sé stjórn félagsins að meirihluta skipuð óháðum stjórnarmönnum, búið sé að finna félaginu nýja stað í Hafnarfirði og fjármálasviði borgarinnar hafi verið falið að skoða kosti og galla sölu.

„Gagnrýnin frá Sjálfstæðisflokknum hefur verið að félagið hafi ekki verið selt í nægilega miklum asa. En hér eru fagleg vinnubrögð mikilvægari en hraði. Það er ekki skynsamlegt að selja fyrirtæki á brunaútsölu og það er ekki gott ef vafi er um ferlið.“