Boeing gaf út yfirlýsingu í dag um að félagið búist ekki við að 737 Max flugvélunum verði hleypt í háloftin af bandarískum flugmálayfirvöldum fyrr en um mitt árið 2020. Því verði flugvélunum ekki hleypt á loft fyrr en í júní eða júli. Það er þremur mánuðum síðar en Boeing hafði áður ráðgert. Heimildarmaður Seattle Times i nnan Boeing segir flugvélaframleiðandann nú ætla að hafa vaðið fyrir neðan sig og flugvélunum verði mögulega hleypt fyrr í loftið.

Kyrrsetningin sem staðið hefur frá því í mars 2019 hefur haft talsverð áhrif á íslenska ferðaþjónustu enda var Icelandair um það bil að taka fjölda slíkra flugvéla í notkun þegar kyrrsetningin var sett á. Icelandair hafði einnig ráðgert að flugvélarnar nýttust í sumaráætlun þessa árs en nú er óvíst hvort það náist. Síðast gaf Icelandair út að ekki væri búist við að hægt væri að nota 737 Max flugvélarnar fyrr en í maí.

Boeing hefur stöðvað framleiðslu vélanna en áætlað er að bætur sem félagið þarf að greiða flugfélögum vegna seinkana nemi milljarði dollara á hverjum mánuði sem seinkar að koma vélunum í loftið.