Afhendingum á Boeing vélum hefur fækkað um 37% á fyrri helmingi ársins 2019 og afhenti fyrirtækið eingöngu 239 vélar á tímabilinu. Frá þessu er greint á vef Reuters .

Airbus SE, helsti samkeppnisaðili Boeing, afhendi 389 flugvélar á tímabilinu og jukust þær um 26%. Boeing hefur því misst stöðu sína sem stærsti flugvélaframleiðandi heims eftir að hafa haldið henni í átta ár.

Ástæðan fyrir þessari fækkun á afhendingum er kyrrsetning Boeing 737 MAX vélanna eftir að tvö mannskæð flugslys áttu sér stað. Greint hefur verið frá því að Boeing 737 MAX vélarnar verði líklega kyrrsettar fram að áramótum.