Það virðist ekki eiga af Boeing flugvélaframleiðandanum í Bandaríkjunum að ganga, en félagið hefur tilkynnt að það sé að leysa nýjan galla sem komið hefur upp í hugbúnaði 737 Max véla sinna við uppfærslu.

„Við erum að gera nauðsynlegar uppfærslur,“ segir í frétt Reuters um málið sem birtist á heila tímanum en gallinn kom í ljós við yfirferð á uppfærslu hugbúnaðar vélanna.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í fréttum síðustu mánuði hafa Boeing 737 MAX vélarnar verið kyrrsettar út um allan heim síðan í ljós kom að sjálfstýribúnaður vélanna virðist bera ábyrgð á tveimur mannskæðum flugslysum á innan við þremur mánuðum.

Boeing segir vandamálið nú tengjast þeim atriðum hugbúnaðarins sem kveikir á sér til að staðfesta að nemarnir sem hugbúnaðurinn reiðir sig á virki rétt. Einn neminn fór ekki í gang á réttan hátt.

Reuters segir að enn hafi ekki komið nein viðbrögð frá bandarískum flugmálayfirvöldum, FAA, við málinu.