Hlutabréf í Boeing hafa fallið um í kringum 2,37% í dag, eftir umfjöllun í fréttum um að fyrirkomulag við öryggisathuganir bandarískra flugmálayfirvalda væri að miklu leiti undir félaginu sjálfu komið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa fjölmörg flugfélög, þar með talið Icelandair þurft að kyrrsetja vélar af gerðinni Boeing 737 Max, en tvær slíkar fórust í flugtaki á fimm mánaða tímabili.

Í frétt Wall Street Journal um málið kom fram að Samgönguráðuneytið í Bandaríkjunum væri að rannsaka samþykki bandarískra flugmálayfirvalda, FAA, á vélunum og þá sérstaklega á tölvukerfinu sem ætlað var að koma í veg fyrir ofris vélarinnar, Maneuvering Characteristics Augmentation System.

Jafnframt sagði blaðið frá því að svarti kassinn svokallaði, flugritinn sem fannst í braki flugvélarinnar sem hrapaði á sunnudag í Eþíópíu sýndi skýrt að líkindi væru með slysinu þar og því í Indónesíu fyrir 5 mánuðum.

Seattle Times fjallaði hins vegar um það að öryggisprófun Boeing á nýja kerfinu gegn ofrisi, hefði alvarlega ágalla, þar á meðal að vanmeta kraft þess. Jafnframt sagði blaðið að FAA hefði beitt staðlaðri aðferð til að prófa kerfið í staðin fyrir að rannsaka það sérstaklega.

Í rannsókn sinni hefur Samgönguráðuneytið varað tvo yfirmenn hjá FAA að það verði að varðveita ákveðin tölvugögn til frekari rannsókna. Fyrir viku síðan gaf Boeing út að það myndi senda út uppfærslu á hugbúnaðinum, nokkrum klukkustundum eftir að FAA sagði að þeir myndu fara fram á hönnunarbreytingu að því er Reuters greinir frá.

Gengi bréfa Boeing flugvélaframleiðandans hefur lækkað um 2,37% það sem af er degi, og fæst hvert bréf félagsins nú á 370 dali. Er það 12,4% lækkun frá lokagengi bréfa félagsins fyrir lokun markaða föstudaginn 8. mars síðastliðinn en seinna flugslysið var í Eþíópíu sunnudaginn 10. mars.