Hlutabréf í bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing hafa fallið um 18% það sem af er degi, og um 59% síðastliðinn mánuð. Hlutabréf þess hafa ekki verið lægri síðan í nóvember 2016, um það leyti sem Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Félagið hefur átt í erfiðleikum síðan upp komu vandamál með 737-MAX vélar þess, sem hafa nú verið kyrrsettar í ár.

Ofan í það kom svo kórónufaraldurinn, sem lamað hefur flugsamgöngur og þar með flugiðnaðinn vegna víðtækra farbanna og ört fallandi eftirspurnar eftir flugferðum.

Fjölmörg flugfélög berjast nú í bökkum, og viðbúið er að einhver þeirra muni fara í gjaldþrot áður en yfir lýkur, auk þess sem mörg þeirra hafa kyrrsett hluta flugvélaflota síns. Mikill fjöldi flugvéla situr því ónotaður.