Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í morgun að uppfærslu á hugbúnaðinum, sem olli tveimur flugslysum síðasta vetur, sé nú lokið. Uppfærður búnaður hafi verið prófaður í 207 flugferðum á 737 Max vélunum, en þær hafa verið kyrrsettar um heim allan vegna slysanna. Frá þessu er greint á vef BBC .

Boeing segist hafa afhent Bandaríska flugmálaeftirlitinu upplýsingar um hvernig flugmönnum ber að bregðast við ólíkum aðstæðum og að sérstök flughermispróf hafi verið gerð til að þjálfa betur flugmenn.

Opinber flugpróf verða ákveðin í samráði við Flugmálaeftirlitið en að því loknu geti Boeing sótt aftur um flugleyfi fyrir Max 737 vélarnar. Flugmálaeftirlitið hefur áður greint frá því að 23. maí nk. verði haldinn sameiginlegur fundur með eftirlitsaðilum um allan heim þar sem farið verður yfir uppfærsluna.

Boeing dugar ekki að sannfæra eingöngu Bandaríska flugmálaeftirlitið. Eftirlitsaðilar frá Bretlandi, Evrópusambandinu og Kanda hafa lýst því yfir að Beoing-vélar, sem fái flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum, fái ekki lengur sjálfkrafa leyfi í þeirra flughelgi.