Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að félagið muni ekki hefja beint flug til Kína að minnsta kosti ekki næstu tvö árin að því er haft er eftir honum á síðunni Flugblogg . Fyrir komandi sumar hafa nokkur kínversk flugfélög boðað flug á Keflavíkurflugvöll eins og Viðskiptablaðið sagði frá í októberlok .

Icelandair reyndi hins vegar að fá hagstæða samninga við Rússnesk stjórnvöld, sem ekki eru aðilar að alþjóðlegum loftferðasamningum, um yfirflug en þarlend flugmálayfirvöld vilja ekki víkja frá kröfum um 100 Bandaríkjadali á hvern farþega sem flogið væri yfir lofthelgi landsins.

Bogi Nils segir verðhugmyndir Rússa enn vera aðalásteytingarsteininn í viðræðunum.

„Við höfum fengið samþykki, en við verðum að geta samið um verðið, sem ekki hefur tekist,“ hefur Flugblogg eftir Boga.

Spurður út í vaxtatækifæri við að flytja farþega frá Kína segir Bogi að Icelandair hafi núþegar skiptifarþegasamninga við félög sem fljúgi þaðan.

„Kína er mjög mikilvægur markaður fyrir okkur, jafnvel þó við fljúgum ekki þangað beint. Við höfum verið að sjá yfir 5% vöxt í fjölda kínverskra ferðamanna. Við erum í samstarfi við Finnair um skiptifarþegasamninga um Helsinki til að fá inn kínverska ferðamenn. Einnig þó í gegnum aðra flugvelli eins og Frankfurt,“ segir Bogi Nils, sem segir beint flug til Kína ekki í áætlunum Icelandair.

„Við höfum möguleikann á að gera það, en það er ekki það sem við einblínum aðallega á núna. Kannski til lengri tíma litið, munum við skoða þann möguleika, en alla vega ekki á þessu ári eða því næsta. Núna einblínum við á að bæta hagnaðinn af núverandi leiðakerfi okkar.“

Finnair hefur löngum notið góðs af hagstæðum samningum um yfirflug sem gerðir voru við rússnesk stjórnvöld á Sovéttímanum.