Um 70% erlendra söluaðila sem bjóða ferðir til Íslands segja bókanir á ferðum til landsins vera farnar að taka við sér eða telja að þær muni taka við sér í náinni framtíð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu .

Í könnun sem lögð var fyrir í júní telja 58% aðspurðra að bókanir á ferðum til Íslands á næsta ári verði sambærilegar og áður en landamærum var lokað. Um 29% aðspurðra telja að það muni gerast á þarnæsta ári og sitthvor sex prósentin telja að það muni gerast á þessu ári eða seinna en árið 2023.

„Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að bókanir frá Norður-Ameríku séu fyrr að koma inn en frá öðrum lykilmörkuðum og að þróunin þar gæti orðið hægari en á nærmörkuðum, þ.e. Norðurlöndunum, Mið- og Suður-Evrópu og Bretlandseyjum. Könnunin bendir einnig til þess að fjarmarkaðir verði mun lengur að taka við sér," segir í tilkynningunni.

Jákvæðir þættir sem hafa áhrif á þróun ferðaþjónustunnar eru öryggi landsins, viðbrögð við faraldrinum og vinsældir áfangastaðarins. Neikvæðir þættir sem hafa áhrif á þróun ferðaþjónustunnar eru verðlag og gengi, framboð af flugferðum og samkeppni frá öðrum áfangastöðum.

„Það er jákvætt að bókanir virðast vera farnar að skila sér og að fimmtungur svarenda segja að þeirra viðskiptavinir séu þegar farnir að ferðast til landsins. Um fjórðungur gerir þó ekki ráð fyrir því að fá inn bókanir á þessu ári og rúm 30% segjast ekki sjá fyrir sér að þeirra viðskiptavinir verði farnir að ferðast til landsins fyrr en á næsta ári.

Þannig að við þurfum að vera raunsæ og stilla væntingum í hóf. Það er líka ljóst að samkeppni milli áfangastaða fer ört harðnandi þegar ferðavilji eykst og við munum þurfa að hafa fyrir hlutunum," segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir , fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, í tilkynningunni.