Jair Bolsonaro, fyrrum höfuðsmaður í brasilíska hernum, vann stórsigur í fyrstu lotu brasilísku forsetakosninganna. Financial Times segir frá .

Bolsonaro, sem hefur talað fyrir átaki gegn glæpum og afturhvarfi til „hefðbundinna fjölskyldugilda“, hlaut 46% greiddra atkvæða. Frambjóðandi hins vinstrisinnaða Verkamannaflokks, Fernando Haddad, hlaut 29% atkvæða.

Þar sem enginn frambjóðandi hlaut hreinan meirhluta atkvæða verður seinni umferð kosninganna haldin 28. október næstkomandi, þar sem kosið verður milli Bolsonaro og Haddad.

„Saman munum við endurbyggja Brasilíu okkar,“ sagði Bolsonaro í ræðu sem hann birti á Facebook, en hann hafði skipt um tón frá framboðsræðum sínum, og talaði um að sameina Brasilíubúa, í stað þess að tala illa um andstæðinga sína.