Bóluefni við Covid 19 sjúkdómnum sem fyrirtækið AstraZeneca þróar í samstarfi við Oxford háskóla getur náð allt að 90% virkni samkvæmt tilraunum sem miðuðu að því að meta bestu skammtastærðir fyrir notkun þess, auk þess að vera jafnvel meira en 80% ódýrara.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum höfðu flest ríki heims framan af veðjað á bóluefni AstraZeneca í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.

Bóluefni fyrirtækisins, sem byggir á erfðabreytingum á hefðbundnum flensuveirum, er mun ódýrara í framleiðslu sem og auðveldara í meðhöndlun heldur en bóluefnið frá Pfizer sem sagt var frá í fréttum á dögunum að tilraunir sýndu ná 95% árangri .

Jafnframt er það enn ódýrara en bóluefnið frá Moderna sem byggir á sams konar tækni og bóluefnið frá Pfizer, en bæði byggja þau á notkun mRNA kjarnasýra sem sagðar eru þurfa mun meiri kulda en hefðbundnir kælar bjóða, öfugt við bóluefni AstraZeneca.

Þannig er talað um að kostnaðurinn við bóluefni AstraZeneca fyrir stjórnvöld og aðra kaupendur nemi 3 til 4 Bandaríkjadölum hver skammtur, meðan bóluefni Pfizer kosti 20 dali hver skammtur. Bóluefnið sem Moderna framleiðir var sagt í ágúst að myndi kosta um 32 til 37 dali skammturinn þó það geti orðið ódýrara fyrir stóra kaupendur.

Þá er ekki búið að taka tillit til mun erfiðari og dýrari flutningskostnaðar við síðarnefndu bóluefnin. Moderna segir reyndar nú að bóluefni sitt verði hægt að nýta í allt að 30 daga ef geymt í hefðbundnum kælum, en upp í 6 mánuði ef í meiri kulda að því er fram kemur í umfjöllun CNBC .

Niðurstöður tilrauna AstraZeneca nú sýna að ef þátttakendur í tilrauninni fá jafnstóran skammt í fyrra og seinna skiptið af þeim tveimur sem þarf til að bólusetja þá, þá sé árangurinn einungis 70%, en ef fyrri skammturinn er minni þá fór árangurinn upp í 90%.

Flest bóluefni þurfa tvo skammta með um viku millibili til að virka sem getur jafnframt flækt bólusetningu og dreifingu bóluefnanna um heiminn, en bandaríska stórfyrirtækið Johnson & Johnson er jafnframt komið langt með bóluefni sem þurfi einungis einn skammt. Það er talið kosta um 10 dali skammturinn, og hægt sé að geyma það í hefðbundnum kæliskápum.