Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að fjöldi borgarfulltrúa frá og með næsta kjörtímabili yrði 23, eða sá lágmarksfjölda fulltrúa sem mælt er fyrir um í sveitarstjórnarlögum.

Tillagan var samþykkt með ellefu atkvæðum gegn fjórum að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Fulltrúar meirihlutaflokkanna, Framsóknar og flugvallarvina, og utanflokka greiddu atkvæði með tillögunni, en Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn henni.

Í umfjöllun RÚV um málið kemur fram að Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi gagnrýnt breytinguna. Hann benti meðal annars á að kerfið myndi stækka með því að fjölga borgarfulltrúum um 53 prósent. „Það er örugglega hægt að finna verkefni fyrir 23 borgarfulltrúa, líka fyrir 30 borgarfulltrúa,“ sagði borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Benti Kjartan enn fremur á að nú væri um það bil átta þúsund kjósendur á bak við hvern borgarfulltrúa, sem væri sambærilegt hlutfall og gerist í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna.

Aftur á móti mótmælti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, ummælum Kjartans og benti á að það væri ekki alltaf vinstrimenn sem stækkuðu kerfið. Dagur benti á að ráðherrum hefði verið fækkað og ráðuneyti sameinuð í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á árunum 2009 til 2013.