Borgarleikhúsið hefur samið við auglýsingastofuna Brandenburg um að sjá um hönnun og gerð kynningarefnis fyrir leikhúsið. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. Samstarfið felur í sér ráðgjöf á sviði markaðsmála, birtingar fyrir hefðbundna og rafræna miðla auk gagnadrifinnar markaðssetningar.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins segir: „Strax í byrjun settum við okkur markmið og stefnu varðandi uppfærslu á markaðsefni og ytri ásýnd Borgarleikhússins með Brandenburg. Samstarf leikhússins og Brandenburgar hefur farið mjög vel af stað og óhætt að segja að við stefnum öll í sömu átt. Þá er teymið okkar á Brandenburg afar reynslumikið og hefur góðan skilning á vinnu sem þessari. Framundan eru einstaklega spennandi og krefjandi tímar og við erum farin að hlakka mikið til hrinda nýju leikári úr vör í haust.“

„Það blása ferskir vindar um Borgarleikhúsið um þessar mundir. Með Brynhildi og nýju fólki kemur mikill kraftur og það er spennandi fyrir okkur á Brandenburg að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem á sér stað í leikhúsinu og hrista aðeins upp í hlutunum. Undirbúningur fyrir nýtt markaðsár er hafinn og vinna við endurhönnun heildarútlits leikhússins og auglýsingaefnis er í fullum gangi“ segir Hrafn Gunnarsson, hugmynda- og hönnunarstjóri Brandenburgar.