Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson hóf í fyrradag lyfjameðferð vegna sýkingar í kviðarholi að því er Fréttablaðið greinir frá. Síðasta haust kom upp sýking á sama stað og í kjölfarið uppgötvaðist að hann væri með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm, fylgikigtar, sem hann tilkynnti um fyrr í sumar.

Nú hefur borgarstjórinn tekið sér veikindaleyfi vegna lyfjameðferðarinnar sem vonast er til að nái sýkingunni niður á nokkrum dögum og að meðferðin hindri að sýkingin gangi jafnlangt og síðast. Mikið hefur mætt á borgarstjóra undanfarið, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur komið í ljós mikil framúrkeyrsla við verkefni á vegum borgarinnar.

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokksins í minnihlutanum hefur kallað braggamálið svokallaða skólabókardæmi um óstjórn og sóun . Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins gagnrýnir  hve erfitt það hafi verið fyrir minnihlutann að nálgast upplýsingar um málið í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.

Dagur segist ekki ætla í lengra veikindaleyfi en nokkra daga að þessu sinni. „Ég tók þá ákvörðun að ég þyrfti að jafna mig og fékk staðgengla til þess að sinna mínum skyldum á meðan,“ segir Dagur sem vonast til að verða betri eftir helgi og geta snúið aftur til vinnu. „Þetta núna tengist ekki einhverjum fjölmiðlamálum. Það er verra að vera ekki í hringiðunni þegar svona er.“