Samkvæmt nýbirtri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er reiknað með 11,3 milljarða króna halla á A-hluta borgarsjóðs á árinu 2021. Áætlunin gerir ráð fyrir 2,7 milljarða króna halla á afkomu samstæðunnar,  A- og B-hluta, á næsta ári.

Fjárhagsáætlun borgarinnar til ársins 2025 gerir ráð fyrir því að afkoma A- hluta tímabilsins verði samtals neikvæð um ríflega 6 milljarða, en jákvæð fyrir A- og B- hluta um 38,6 milljarða króna.

Afkoman lækki aftur 2024

Gert er ráð fyrir því að afkoma samstæðu A- og B hluta verði orðinn jákvæð strax á árinu 2022, um 5,3 milljarða, hækki svo í 9,7 milljarða árið 2023, 10,5 milljarða árið 2024 og tæplega 15,8 milljarða árið 2025.

Afkoma A hluta verði þó áfram neikvæð á árinu 2022, eða um 2,9 milljarða, en verði jákvæð árið 2023 um ríflega 1,7 milljarða. Hins vegar lækki afkoman árið 2024 niður í 852 milljónir króna, en taki svo stökk árið 2025 upp í 5,6 milljarða króna.

Útkomuspá fyrir árið sem er að líða gerir ráð fyrir því að halli A- hluta í ár muni nema tæplega 7,2 milljörðum króna, en halli samstæðu A- og B- hluta muni nema tæplega 2,1 milljarði króna.

Tekjurnar verði nærri 200 milljarðar króna

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum gerði fjárhagsáætlun borgarinnar ráð fyrir því að afkoma A- hluta yrði jákvæð um 3,4 milljarða króna og afkoma samstæðu A- og B- hluta yrði jákvæð um ríflega 11 milljarða  króna á árinu.

Gert er ráð fyrir því að tekjur A- hluta borgarinnar aukist um 1,8% í ár frá fyrra ári og nemi 125,6 milljörðum króna, en á næsta ári nemi aukningin 6,4% og tekjurnar nemi 133,6 milljörðum króna. Útgjöldin aukist hins vegar í ár um 8,6%, og nemi 127,2 milljörðum króna, en á næsta ári nemi aukningin 7,9% og útgjöldin þar með ríflega 137,1 milljarði króna.

Útkomuspá samstæðu A- og B- hluta gerir ráð fyrir 2,3% tekjuaukningu í ár frá fyrra ári og að þær nemi 189,5 milljörðum króna. Á næsta ári gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir því að tekjurnar aukist um 5,4% og nemi ríflega 199,7 milljörðum króna.

Rekstrargjöld samstæðu A- og B- hluta í ár eru áætlaðar 8,6% hærri en á síðasta ári, eða 158,3 milljarðar króna, en á næsta ári er áætlað að þau aukist svo um 6,2%, upp í 168,1 milljarð króna.