Boris Johnson, einn helsti talsmaður útgöngusinna sem unnu nauman sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi samband Bretlands við Evrópusambandið, segir í nýjum skoðanapistli sínum í The Telegraph að breska Sterlingspundið sé „enn sem komið er hærra en það var árið 2013 og 2014."

Það vakti eftirtekt að á meðan samherjar hans í útgönguliðinu vörðu helginni í að ræða niðurstöðurnar þá hefur Boris ekki tjáð sig þar til nú - en nú er ljóst hvað hann var að gera meðan umræðan stóð sem hæst um helgina. Hann hefur verið að rannsaka gjaldeyrismarkaði og gengisþróanir gaumgæfilega.

Johnson tekur þó ekkert fram við hvaða gjaldmiðill hann miðar þegar hann fullyrðir þetta. Eftir að pundið veiktist talsvert í viðskiptum morgunsins eru því margir undrandi á ummælum hans. Frá árinu 2013 er pundið í raun og reynd einna sterkast gegn hinu úkraínska hryvnia, tenge í Kasakstan og metical í Mósambík.

Fullyrðingin er þá einnig sönn gegn dalnum - þeim namibísku, jamaikaísku og súrínömsku dölum, það er að segja - en ekki gegn Bandaríkjadalnum, gagnvart hverjum pundið hefur ekki verið jafnveikt í ríflega 30 ár. Eftirköst þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa komið verulega niður á gengi Sterlingspundsins sem og hlutabréfagengi breskra banka.