Virgin Orbit, geimfyrirtæki breska milljarðamæringsins Richard Branson, stefnir að 200 milljóna Bandaríkjadala hlutafjárútboði, andvirði 27,6 milljarða íslenskra króna. Verður þriðja útboð Virgin félaga á vegum Branson síðan í sumar.

Gangi útboðið eftir yrði félagið verðmetið á 1 milljarð dala, eða andvirði um 138 milljarða íslenskra króna. Útboðið gæti átt sér stað fyrir lok ársins, en því er ætlað að fjármagna gervihnattaskot þessa 500 manna fyrirtækis sem starfar frá Long Beach í Kaliforníu.

Útboðið kemur þó á tíma sem bæði ferðaþjónustufyrirtæki Branson, sem og geimfyrirtækið, hafa orðið fyrir skaða vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á hagkerfi heimsins og iðnaðinn.

Enn engu skotið á sporbaug

Branson hefur, auk Bandaríkjamannanna Jeff Bezos stofnanda Amazon, og Elon Musk, framkvæmdastjóra Tesla, verið meðal brautryðjenda í því að einkafyrirtæki færi sig út í eldflauga- og geimiðnaðinn sem löngum var leiddur af ríkisstofnunum.

Öfugt við fyrirtæki Bandaríkjamannanna tveggja hyggst Virgin Orbit þó skjóta gervihnöttum sínum með minni eldflaugum frá flugvélum sem taki þau fyrsta spölinn. Veðjar stofnandinn á að sú lausn verði ódýrari en eldflaugaskot frá jörðu niðri.

„Á markaði með mörgum félögum er Virgin Orbit í fararbroddi,“ hefur WSJ eftir Carissa Christensen, stofnanda og framkvæmdastjóra ráðgjafafyrirtækisins Bryce Space and Technology. „En eins og öll hin þarf það að horfast í augu við áskoranir.“

Enn hefur félagið ekki sent farm út í geim, en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir tylft skota eftir ár. Félagið gæti grætt á auknum áhuga hermálayfirvalda til að styðja við smærri gervihnetti og sveigjanlegri geimflaugakerfi.

Hins vegar hafa minni frumkvöðlafélög, sem fyrirtækið hefur treyst á að komi með nýjungar í geimiðnaðinum, frá smærri gervihnöttum til myndavélabúnaðar, átt í vandræðum jafnvel fyrir útbreiðslu veirufaraldursins.

Jafnframt hefur félagið sjálft átt í vandræðum, en í maí mistókst tilraunaflug félagsins að komast á sporbaug eftir skot frá flugvél. Talið er að félagið hafi núþegar eytt 400 milljón dölum, andvirði 55,2 milljarða króna, í þróunarvinnu.

Þriðja útboðið hjá fyrirtækjasamsteypu Branson

Útboðið nú væri það þriðja sem fyrirtæki Branson hefðu farið út í síðan kórónuveirufaraldurinn breiddi úr sér frá upphafsborginni Wuhan í Kína, í ársbyrjun, en verið kenndur á síðari stigum við sjúkdóminn sem hann veldur, Covid 19.

Flugfélag Branson, Virgin Atlantic Ariways, tryggði sér 1,5 milljarða dala í júlí, en inn í því var sala á 10% hlut í Virgin Galactic Holdings, en það er fyrirtækið sem heldur utan um geimferðaþjónustuna sem hann hefur verið þekktur fyrir. Þar með Varð Branson minnihlutaeigandi í því félagi.

Fyrr í þessum mánuði safnaði svo alþjóðlega stórfyrirtækið sem Branson stofnaði ásam Nik Powell, Virgin Group, meira en væntum 480 milljónum dala, í nýtt fjárfestingarfélag á þess vegum í New York, en félaginu er ætlað að fjárfesta á neytendamarkaði.