Flugfélagið sáluga, Wow air, braut skilmála nýútgefinna skuldabréfa á aðfangadag síðastliðinn með því að hafa ekki 7,5 milljónir evra á tilteknum reikningi, eins og skilmálar bréfanna kváðu á um. Við það virkjaðist heimild skuldabréfaeigenda til að gjaldfella bréfin, en hún var ekki nýtt. Morgunblaðið segir frá þessu nú í morgun .

Skuldabréfin sem um ræðir eru þau sem boðin voru út síðasta haust, og báru hæstu vexti af skuldabréfum flugfélaga í allri Evrópu.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins hafa ekki komið fram skýringar á því hvers vegna gjaldfellingarheimildin var ekki virkjuð, en upplýsingarnar koma fram í skýrslu Deloitte til skiptastjóra flugfélagsins.