Öll bréf í kauphöllinni lækkuðu utan bréfa Arion banka og Brim sem stóðu í stað á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag. Heildarviðskiptin námu 1,9 milljörðum króna og lækkaði Úrvalsvísitalan í þeim í 2.205,55 stig, en á föstudaginn fór lokagengi vísitölunnar í fyrsta sinn yfir 2.300 stiga múrinn.

Annan daginn í röð voru mestu viðskiptin með bréf Símans, eða fyrir 429,7 milljónir króna, en bréfin sem hækkuðu í gær í aðdraganda birtingar uppgjörs félagsins lækkuðu nú um 0,43%, niður í 7,44 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Arion banka, eða fyrir 309,6 milljónir króna, en þau hækkuðu um 0,13%, í 45,15 krónur í aðdraganda uppgjörs bankans sem birt var eftir lokun markaða en þar kom fram að hann hagnaðist um 4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi.

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 228,4 milljónir króna, en bréf Marel lækkuðu jafnframt þriðja mest allra félaga í kauphöllinni í dag eða um 3,67%, og fór gengi félagsins niður í 708 krónur, en það fór yfir 750 krónu múrinn í síðustu viku.

Fyrrum venslafélögin Eimskipafélag Íslands og Icelandair lækkuðu hins vegar meira, þar af lækkaði skipafélagið mest allra eða um 4,26%, niður í 180 krónur í þó litlum viðskiptum eða fyrir 17 milljónir króna.

Lækkun flugfélagsins nam 4,21%, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 29 milljónir og nam lokagengi þess 0,91 krónu, sem er 9% undir útboðsgengi nýrra bréfa félagsins í útboðinu sem fram fór um miðjan síðasta mánuð.

Krónan styrktist á ný gagnvart evru

Krónan styrktist gagnvart evru, breska pundinu og norðurlandakrónunum þremur, en veiktist gagnvart Bandaríkjadal, japönsku jeni og svissneska frankanum.

Þannig nam veiking evrunnar 0,06% gagnvart krónu, og fæst hún nú á 164,46 krónur og breska pundsins um 0,05%, sem fæst nú á 181,71 krónu, en mest veiking var á gengi norsku krónunnar, eða um 1,66%, niður í 14,961 krónu.

Bandaríkjadalurinn styrktist um 0,57%, upp í 139,97 krónur, japanska jenið styrktist um 0,68%, upp í 1,3413 krónur og svissneski frankinn hækkaði um 0,23%, upp í 153,81 krónu.