Icelandair leiddi hækkanir dagsins á hlutabréfamarkaði en bréf flugfélagsins hækkuðu um tíu prósent í 413 milljóna króna veltu. Standa bréfin í 1,55 krónum hvert en þau voru í 0,9 krónum í upphafi nóvember og hafa því hækkað um 72% síðan þá.

Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 1,2% og stendur í 2.363 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 8,9 milljörðum króna í alls 456 viðskiptum sem er talsvert meira en á hefðbundnum viðskiptadegi. Velta með bréf Arion banka nam 3,8 milljörðum króna en bandaríski vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital seldi í Arion fyrir 3,6 milljarða.

Af þeim nítján félögum sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Íslands hækkuðu hlutabréf fimmtán félaga. Bréf Arion banka og Símans lækkuðu, um 0,22% og 0,62%.

Hlutabréf Reita hækkuðu um tæplega fjögur prósent í 750 milljóna króna veltu. Bréf Reita standa í 66,8 krónum en félagið lauk fimm milljarða hlutafjárútboði í október þar sem útboðsgengið nam 43 krónum. Bréfin hafa hækkað um 55% síðan þá.

Bréf Regins hækkuðu um 3,8% í viðskiptum dagsins og standa í 21 krónu hvert. Reginn lauk við 600 milljóna króna hlutafjárútboð í september þar sem útboðsgengið var fimmtán krónur og hafa bréfin hækkað um 40% síðan þá.

Bandaríkjadollari fæst nú á 126 krónur

Gengi krónunnar hækkaði talsvert gagnvart sínum helstu viðskiptamyntum í nóvember. Styrkingin hefur haldið áfram í desember. Í dag styrktist krónan um tvö prósent gagnvart Bandaríkjadollara sem nú fæst á 126 krónur. Krónan hefur ekki verið jafn sterk gagnvart dollaranum síðan í mars á þessu ári.

Krónan styrktist gagnvart evru um 1,42% sem nú fæst á 154 krónur og um eitt prósentustig gagnvart breska pundinu sem fæst á 170 krónur.