Hækkanir á hlutabréfamörkuðum hérlendis héldu áfram í dag og hækkaði Úrvalsvísitalan (OMXI10) um hálft prósentustig í lok vikunnar. Heildarvelta nam 5,2 milljörðum í 765 viðskiptum. Mest velta var með bréf Kviku banka fyrir 900 milljónir króna. Bréf félagsins hækkuðu sömuleiðis mest eða um 3,06%. Í dag var tilkynnt um 2,6 milljarða króna kaup Stoða í Kviku.

Bréf Kviku banka standa í 15,15 krónum hvert og hafa hækkað um 43% það sem af er ári. Bréf bankans náðu lágmarki á þessu ári í marsmánuði, líkt og bréf fjölda annarra félaga. Lægst fóru bréf Kviku í sjö krónur og hafa því hækkað um 116% síðan þá.

Hlutabréf Icelandair héldu áfram að hækka. Bréfin hækkuðu um tæplega tvö prósent í 840 milljóna króna veltu og standa í 1,58 krónum. Bréf flugfélagsins hækkuð um tíu prósent í gær og hefur markaðsvirði Icelandair nú hækkað um tæplega tíu prósent það sem af er ári.

Bréf Festi hækkuðu næst mest eða um 2,5% og standa í 165 krónum hvert. Bréf félagsins hafa hækkað um rúmlega fjórðung á þessu ári. Markaðsvirði Festi er um 53 milljarðar króna.

Mest lækkuðu bréf Símans eða um 2,7% í 270 milljóna króna veltu. Þrátt fyrir lækkun dagsins í dag hafa bréf félagsins hækkað talsvert á þessu ári eða um tæplega helming.

Krónan hélt áfram að styrkjast gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum. Krónan styrktist til að mynda um 0,75% gagnvart Bandaríkjadollara sem nú fæst á rúmlega 125 krónur. Krónan styrktist um 0,72% gagnvart evrunni sem nú fæst á 153 krónur.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 4,3 milljörðum króna í 37 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa ellefu skuldabréfaflokka hækkaði en krafa fjögurra flokka lækkaði. Mest hækkaði krafa verðtryggðra ríkisbréfa sem eru á gjalddaga 2026 eða um 12 punkta. Krafan stendur nú í 0,14%. Í upphafi marsmánaðar á þessu ári nam krafan 0,25%. Í september á þessu ár var krafan alla jafna í kringum -0,5%.