Markaðir í Bretlandi virðast vera að jafna sig á ný eftir hrun síðustu tveggja daga. Kauphöllin í London opnaði fyrir rúmum klukkutíma og hefur hækkun FTSE 100 vísitölunnar numið 2,2% en FTSE 250 vísitalan hefur hækkað um 3,1%.

Sveiflur í kjölfar úrsagnar úr ESB

Síðustu tvo daga eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi, þar sem meirihlutinn ákvað að segja skilið við Evrópusambandið, hefur FTSE 100 vísitalan tapað 5,6% og FTSE 250 vísitalan tapað heilum 13,7%.

Jafnframt hefur pundið hækkað um 0,7% gagnvart Bandaríkjadal, eða í 1,33 dali hvert pund. Stuttu áður en úrslitin urðu ljós hafði það náð upp í 1,50 dali, en í gær hafði það ekki verið lægra í 31 ár. Í gær féll ávöxtunarkrafan á 10 ára ríkisskuldabréf jafnframt niður fyrir 1% í fyrsta sinn þár sem fjárfestar eru að gera ráð fyrir lækkun stýrivaxta.

Hækkanirnar voru fyrst og fremst í þeim geirum sem tóku á sig mesta fallið síðustu daga, bankar, fasteignir og flugfélög. Hækkuði Barclays um 7% og Lloyds um 6%, en byggingarverktakarnir Persimmon og Taylor Wimpey hækkuðu um 6%. Flugfélagið easyJet hækkaði um nærri 3% eftir miklar lækkanir í gær.

Ekki verður af neyðarfjárlögum í bili

George Osborne, fjármálaráðherra, sagði að markaðirnir væru að rétta sig af en til staðar væru neyðarúrræði ef til yrfti. „Neyðaráætlanir eru til staðar. Bankarnir eru traustir og öruggir, fjármálaráðuneytið vinnur með bönkunum að því að tryggja jafnvægi á mörkuðum og við höfum eytt miklum tíma í að undirbúa þessar áætlanir,“ sagði hann.

Osborne hafði fyrir kosningarnar varað við því að ef úrsögn yrði samþykkt þyrfti að hækka skatta og lækka útgjöld ríkisins. Á blaðamannafundi fyrir opnun markaða á mánudagsmorgun dró hann þó til baka orð sín fyrir kosningarnar að hann myndi strax eftir kosningarnar koma á neyðarfjárlögum þess efnis, ef úrsögn yrði samþykkt.

Nú segir hann það muni bíða þangað til nýr forsætisráðherra verði kosinn í haust, en George Osborne barðist fyrir áframhaldandi veru Bretlands í ESB fyrir kosningarnar.